Kjaftstopp yfir þessum aulagangi

Guðmundur Þórður Guðmundsson er ósáttur við stjórnvöld.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er ósáttur við stjórnvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er aldrei í rónni fyrir svona leiki. Það er svo mikið í húfi og forkeppnisleikir eru svo svakalega mikilvægir og það má ekkert út af bera. Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, í samtali við mbl.is.

Ísland tryggði sér sæti á lokamóti HM með sannfærandi sigri á Austurríki í umspili. Ísland vann fjögurra marka sigur á útivelli og átta marka sigur á Ásvöllum í gær.

„Þú getur farið á erfiðan útivöll með erfiðum dómurum og það er sá pakki. Við gerðum það frábærlega vel og komum okkur í góða stöðu. Það er samt ekki nóg. Fjögur mörk í handbolta er ekki mikið. Við ræddum forystuna ekki neitt því við vildum vinna leikinn og við gerðum það frábærlega.

Varnarleikurinn var stórkostlegur, sérstaklega í seinni hálfleik þegar þeir komust ekki nálægt markinu. Þá var sóknarleikurinn mjög góður og við náðum mörgum hraðaupphlaupum og það var gaman að upplifa þetta. Leikmenn eiga hrós fyrir mikinn karakter, vilja og fagmennsku,“ bætti Guðmundur við. 

„Ég er mjög þakklátur fyrir þessa áhorfendur sem studdu okkur á Ásvöllum. Það var einstaklega góð stemning, rosaleg gleði og það var skemmtilegt að spila. Við erum þakklátir Haukum fyrir að fá að spila í þeirra húsi,“ sagði Guðmundur. Hann er samt ósáttur við að þurfa að spila heimaleiki annars staðar en í þjóðarhöll.

Farið að gera eitthvað í þessum málum

„Maður er mjög hugsi gagnvart aðgerðarleysi stjórnvalda varðandi þjóðarhöll. Að mínu mati er komin upp óásættanleg staða. Við og fleiri landslið í boltaíþróttum erum algjörlega á vergangi, sem snýr líka að æfingum þegar við erum að koma saman. Það er ekki enn þá búið að setja gólf á Laugardalshöllina og það er komið eitt og hálft ár.

Þar fyrir utan er hún nánast ónothæf og ekki löggild sem keppnishöll. Ég hef upplifað ýmislegt en ég er að verða kjaftstopp yfir þessum aulagangi. Það er aulagangur að geta ekki tekið á þessu að myndarskap. Það verða menn úr öllum flokkum að sameinast um þetta ásamt borgarstjóra Reykjavíkur til að koma þessu af stað. Það tók Ungverja 18 mánuði að byggja 21.000 manna höll fyrir EM. Farið að gera eitthvað í þessum málum. Það er skömm af þessu,“ sagði Guðmundur af miklum eldmóði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert