Deildarmeistarar Vals eru komnir í 1:0 í einvígi sínu gegn Fram í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Lokatölur urðu 34:24 en Valsmenn voru með nokkra yfirburði.
Valsmenn fóru vel af stað og var staðan 6:3 eftir tíu mínútna leik. Valur var með undirtökin næstu mínútur en í stöðunni 9:5 tók Einar Jónsson þjálfari Fram leikhlé. Það átti eftir að skila sér því í kjölfarið minnkaði Fram muninn í 10:9.
Í stöðunni 11:9 fékk Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, einn besti leikmaður Fram, beint rautt spjald fyrir að fara í andlitið á leikmanni Vals. Við það gjörbreyttist leikurinn og Valsarar gengu á lagið. Að lokum munaði sjö mörkum á liðunum í hálfleik, 18:11.
Björgvin Páll Gústavsson í marki Vals reyndist Frömurum erfiður og varði átta skot þar af tvö víti í hálfleiknum. Hinum megin vörðu markverðir Fram lítið sem ekki neitt.
Munurinn var orðinn níu mörk snemma í seinni hálfleik, 22:13. Framarar neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í sex mörk, 24:18, í seinni hálfleik. Þá kom góður kafli hjá Val og munaði níu mörkum þegar skammt var eftir, 30:21, og sigldi Valur öruggum sigri í höfn.
Magnús Óli var markahæstur Valsara með sjö mörk en næstur var Finnur Ingi Stefánsson í liði heimamanna með fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti. Þá varði Björgvin Páll 16 skot, þar af þrjú víti, og var valinn maður leiksins. Reynir Þór Stefánsson var markahæstur Framara með sjö mörk, tvö úr vítum, og næstur var Kjartan Þór Júlíusson með sex.
Valur getur tryggt sér sæti í undanúrslitum er liðin mætast í öðrum leik í Safamýri 24. apríl en tvo sigra þarf til að fagna sigri í einvíginu.