Handknattleiksmaðurinn Alexander Petersson mun leggja skóna á hilluna eftir yfirstandandi tímabil. Leikmaðurinn tilkynnti um ákvörðunina á Facebook í kvöld.
Alexander, sem verður 42 ára í júlí, leikur með Melsungen í þýsku 1. deildinni. Liðið á þrjá leiki eftir af deildarkeppninni, sem verða síðustu leikir Alexanders á ferlinum.
Leikmaðurinn lék 186 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði í þeim 725 mörk. Hann vann silfur með íslenska liðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlaun á EM í Austurríki tveimur árum síðar.
Alexander lék með Gróttu/KR frá 1998 til 2003 en hefur leikið í Þýskalandi allar götur síðan. Hann lék lengst af með Rhein-Neckar Löwen eða frá 2012 til 2021. Þá lék hann einnig með liðum á borð við Flensburg og Füchse Berlin.