Vinstri hornamaðurinn Stiven Tobar Valencia var útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar í handknattleik karla eftir að hann hjálpaði liði sínu Val að verja Íslandsmeistaratitilinn með samanlögðum 3:1-sigri á ÍBV í úrslitaeinvíginu. Valur vann fjórða leikinn í Vestmannaeyjum á laugardag 31:30, þar sem Stiven skoraði sex mörk, og annar Íslandsmeistaratitill Valsmanna í röð var þar með í höfn.
„Þetta er búið að vera sérstakt tímabil. Ég hef fengið mikla ábyrgð, sérstaklega vegna þess trausts sem Valur hefur veitt mér. Þetta er búið að vera alveg helvíti erfitt en það er ekkert annað en að vera bara glaður.
Maður veit að úrslitakeppnin er aðeins öðruvísi heldur en deildin, það er bara þannig, þá setti maður miklu meiri fókus þar sem maður vissi hvað var undir. Ég vildi líka taka sex titla í röð, vildi klára þetta með því að taka þrennuna,“ sagði Stiven í samtali við Morgunblaðið.
Hann sagði það hafa komið sér á óvart að hafa verið valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar þó Stiven, sem er 21 árs gamall og hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands, hafi vissulega verið ánægður með eigin frammistöðu.
„Það var ánægjulegt. Það kom mér líka aðeins á óvart, ég bjóst ekki alveg við því. Ég vissi alveg að ég hefði staðið mig vel, var alveg ánægður með frammistöðu mína en þetta hefði ekki getað gerst hefði ég ekki verið með þessa meistara við hliðina á mér. Einar [Þorsteinn Ólafsson] að kasta boltanum fram og Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] náttúrlega, ég hefði ekki viljað hafa neinn annan en Bjögga í að senda þessa bolta fram.“
Á tímabilinu vann Valur, eins og Stiven benti á, þrefalt; Íslandsmeistaratitilinn, bikarmeistaratitilinn og deildarmeistaratitilinn. Liðið varð einnig Íslands- og bikarmeistari á síðasta tímabili. Hver er lykillinn að þessu frábæra gengi Valsmanna undanfarin tvö tímabil?
„Við erum búnir að vera með sömu leikmenn og við strákarnir þekkjumst vel og náum vel saman. Svo erum við líka bara með marga uppalda leikmenn, flestum af þessum ungu strákum sem ég var að spila með er ég búinn að vera að spila með alla ævi, frá því að ég var kríli,“ svaraði hann.
Spurður hvernig liðinu tækist alltaf að halda dampi og seðja hungrið með hverjum titlinum á fætur öðrum sagði Stiven:
„Maður þarf að jarðtengja sig og maður getur ekki verið að hugsa of mikið um gömlu titlana. Maður þarf að hugsa að það sé bara næsti titill. Að núllstilla sig, ég held að það sé málið.“
Sjálfur stefnir hann langt í íþróttinni en fer sér þó að engu óðslega. „Eins og staðan er núna hefur frammistaðan sem ég hef sýnt örugglega skilað mér mjög miklu fyrir framtíðina en það kemur bara það sem kemur. Væntanlega er draumurinn að komast í landsliðið og komast í gott lið úti en það kemur bara þegar að því kemur, ég held það,“ sagði Stiven.
Stiven er fæddur í Kólumbíu en fluttist ungur að árum til Íslands ásamt fjölskyldu sinni. „Ég fæddist í Kólumbíu en ég man eiginlega ekkert eftir æskunni þar. Æskan mín öll hefur verið á Íslandi. Mamma og við öll fluttum til Ekvador og þar fengum við tækifæri til þess að koma til Íslands og mamma greip það. Við komum hingað þegar ég var í kringum þriggja ára og svo hef ég bara verið hér síðan,“ útskýrði hann.
Viðtalið við Stiven má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.