Gamla ljósmyndin: Sjö ár í röð

Úr safni Morgunblaðsins.

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Fram varð Íslandsmeistari kvenna í handknattleik síðasta sunnudag eftir harða keppni við Val. Er þetta í tuttugasta og þriðja sinn sem Fram verður Íslandsmeistari kvenna í íþróttinni.

Kvennalið Fram var meistari í fyrsta sinn árið 1950 og vann þá fimm ár í röð. Á áttunda áratugnum kom annað velgengnisskeið þar sem liðið varð meistari sex sinnum á sjö árum. Segja má að Framliðið taki miklar rispur þegar vel gengur. Á níunda áratugnum náði liðið svo ótrúlegri sigurgöngu og varð Íslandsmeistari sjö sinnum í röð.

Þá var Guðríður Guðjónsdóttir atkvæðamesti útispilari liðsins en hún og Kolbrún Jóhannsdóttir markvörður voru máttarstólpar liðsins. Guðríður er ein mesta skytta í sögu Íslandsmótsins og er þriðja markahæsta landsliðkonan frá upphafi þótt A-landsleikirnir séu ekki nema 80 sem þykir ekki mjög mikið í dag.

Meðfylgjandi mynd er tekin keppnistímabilið 1986-1987 eða í miðri sigurgöngu Framliðsins sem varð Íslandsmeistari frá 1984-1990. Guðríður er í þann mun að skora eitt af sjö mörkum sínum í sigri gegn KR 27:18 í deildarleik í Laugardalshöllinni í febrúar. Guðríður var markahæst í leiknum en slíkt gerðist oftar en ekki á þessum árum. 

Guðríður var valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 1995. Þegar keppnisferlinum sleppti snéri hún sér að þjálfun og hefur einnig setið í stjórn HSÍ.

Guðríður er af mikilli handboltafjölskyldu eins og fram hefur komið. Móðir hennar Sigríður Sigurðardóttir hlaut fyrst kvenna sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Guðríður náði að leika með systrum sínum Hafdísi og Díönu. Í vikunni var greint frá því að dóttir hennar Sigríður Hauksdóttir hafi gengið til liðs við Val en hún hefur leikið A-landsleiki eins og móðir sín og amma. Guðjón Jónsson faðir Guðríðar var landsliðsmaður í bæði handknattleik og knattspyrnu og varð Íslandsmeistari með Fram í báðum greinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert