Þjóðverjarnir brugðust hratt við

Alfreð Gíslason á hliðarlínunni hjá þýska landsliðinu.
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni hjá þýska landsliðinu. AFP

Alfreð Gíslason réði sig til starfa sem þjálfari karlalandsliðs Þýskalands í handknattleik snemma árs 2020 og hóf formlega störf í mars árið 2020. 

Alfreð hafði áður ákveðið að vera í fríi í hálft ár eftir að hann hætti að eigin ósk hjá þýska stórliðinu THW Kiel sumarið 2019. 

Að loknu EM landsliða í janúar 2020 fór fyrirspurnum og tilboðum fjölgandi.  Alfreð var með áhugavert tilboð frá rússneska handknattleikssambandinu snemma árs 2020 þegar Þjóðverjarnir skárust í leikinn á síðustu stundu.

„Ég hafði fengið fyrirspurnir lengi þegar ég samdi við Þjóðverjana. Ég var eiginlega búinn að ganga frá samningi við Rússa. Ég var búinn að sjá fyrir mér langtímaplan fyrir rússneska handboltasambandið. Eftir EM árið 2020 fór ég til Moskvu og var nánast búinn að semja við þá en sagði forseta rússneska sambandsins að ég hefði lofað konunni minni því að skrifa ekki undir neitt. Ég myndi fara heim og taka ákvörðun í samráði við hana.

Íbúar í Kiel fagna Alfreð í júní 2019 þegar hann …
Íbúar í Kiel fagna Alfreð í júní 2019 þegar hann hafði stýrt THW Kiel í síðasta sinn en þar hélt hann um stjórnartaumana í ellefu ár með mögnuðum árangri. Ljósmynd/Sascha Klahn

Þegar ég lenti í Berlín var hringt í mig frá þýska sambandinu. Það var á mánudegi og ég tjáði þeim að ég ætti að gefa Rússunum endanlegt svar á hádegi á þriðjudegi. Um kvöldið voru Þjóðverjarnir mættir til mín. Það var auðvitað mun betra mál fyrir okkur að vera bara í Þýskalandi.

Eins og staðan er í heiminum í dag er ég auðvitað mjög ánægður með hvernig þetta fór. Um leið hef ég mikla samúð með rússneskum handboltamönnum og fólki í handboltahreyfingunni í Rússlandi en þar á ég marga vini,“ segir Alfreð meðal annars í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Viðtalið við Alfreð í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert