Einn körfuboltaleikur en engir handboltaleikir í Laugardalshöll á árinu

Langt er um liðið síðan leikið var síðast í Laugardalshöll. …
Langt er um liðið síðan leikið var síðast í Laugardalshöll. Úr leik Íslands og Búlgaríu í höllinni í nóvember árið 2019. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Neðri áhorfendastúka Laugardalshallarinnar er ónýt og því verður ekkert af því að A-landslið karla í handknattleik spili í henni í október næstkomandi. Hins vegar stendur til að karlalandsliðið í körfuknattleik leiki í höllinni í nóvember.

Í umfjöllun RÚV segir að ekki sé von á nýrri neðri áhorfendastúku fyrr en í janúar og að hún verði uppsett og tilbúin til notkunar í febrúar.

Því mun leikur karlalandsliðsins í handknattleik við Ísrael í undankeppni EM, sem átti að fara fram í höllinni þann 12. október næstkomandi, fara fram að Ásvöllum líkt og heimaleikir A-landsliðanna hafa gert undanfarin tvö ár í kjölfar þess að heitt vatn lak um gólf Laugardalshallar, sem hafði gífurlegar skemmdir í för með sér.

Áður hafði Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, tilkynnt að tveir leikir kvennalandsliðsins í handknattleik gegn Ísrael, í forkeppni HM 2023 í byrjun nóvember, myndu báðir fara fram að Ásvöllum. Var það tilkynnt áður en vitað var af ónýtu stúkunni.

Leikur karlalandsliðsins í körfuknattleik gegn Georgíu í undankeppni HM 2023 mun hins vegar fara fram í Laugardalshöllinni þann 11. nóvember næstkomandi.

Líkt og kemur fram í umfjöllun RÚV getur sá leikur farið fram í höllinni þar sem körfuknattleiksvöllur er minni en handknattleiksvöllur og ekki eru gerðar sömu kröfur til áhorfendastæða í alþjóðlegum keppnisleikjum í körfuknattleik og eru gerðar í slíkum leikjum í handknattleik.

Lausar áhorfendastúkur sitt hvoru megin við heiðursstúkuna í Laugardalshöll verða fluttar yfir og notaðar í stað ónýtu stúkunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka