Eyjamenn burstuðu ÍR-inga

Kári Kristján Kristjánsson reynir skot að marki ÍR-inga í Vestmannaeyjum.
Kári Kristján Kristjánsson reynir skot að marki ÍR-inga í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu ÍR-inga með 15 marka mun, 43:28, í Olísdeild karla í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld. Leikurinn var í raun aldrei spennandi en heimamenn gáfu tóninn strax í upphafi leiks.

Margir skoruðu mikið af mörkum hjá ÍBV, Rúnar Kárason gerði átta og þeir Dánjal Ragnarsson, Nökkvi Snær Óðinsson og Kári Kristján Kristjánsson gerðu allir sex mörk.

Hjá gestunum var Viktor Sigurðsson langbestur en hann skoraði átta mörk.

Staðan eftir nokkrar mínútur var 4:0 fyrir ÍBV en þá var Bjarna Fritzsyni nóg boðið þegar hann tók fyrsta leikhléið sitt af þremur í dag. Bjarni freistaði þess að stoppa í götin varnarlega en á sama tíma þurfti hann að koma mörkum á töfluna fyrir sitt lið.

Arnar Freyr Guðmundsson fyrirliði átti að leiða sóknarleik liðsins í upphafi en hann fékk skotleyfi, af fyrstu átta skotunum rataði einungis eitt þeirra í markið en það var af vítalínunni. Petar Jokanovic var með hann í vasanum í leiknum en samtals skoraði hann einungis eitt mark úr átta skotum utan að velli.

Staðan var orðin 11:3 þegar fimmtán mínútur voru liðnar en munurinn var einnig átta mörk þegar gengið var til búningsherbergja en þá var Dagur Arnarsson nýbúinn að skora beint úr aukakasti, þegar tíminn í fyrri hálfleik var liðinn.

ÍR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn ekki illa en þeir minnkuðu muninn í sex mörk, 30:24, þegar tuttugu mínútur voru eftir. Stuttu seinna tók Bjarni sitt annað leikhlé en það fór ekki vel og komust Eyjamenn í 35:24 stuttu seinna.

Ótrúlegur fjöldi marka var skoraður í þessum leik en það virðist vera venjan í leikjum ÍBV, fyrsti leikur liðsins í deildinni fór 35:35 og má leiða líkur að því að ÍBV verði annað árið í röð það lið sem skorar flest mörk í deildinni.

ÍR-ingar þurfa að reyna að jafna frammistöðu sína en það er erfitt að vera með mjög slæma frammistöðu í einum leik og mjög góða í þeim næsta yfir heilt tímabil.

Dagur Arnarsson skapaði ellefu færi fyrir liðsfélaga sína, flest þeirra dauðafæri en liðsfélagar hans nýttu tíu þeirra. Elmar Erlingsson átti þá sjö stoðsendingar en þeir félagar stýrðu sóknarleik ÍBV frábærlega.

ÍBV 43:28 ÍR opna loka
60. mín. Nökkvi Snær Óðinsson (ÍBV) skoraði mark Sjötta mark hans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert