Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik fór með þetta

Andri Snær Stefánsson.
Andri Snær Stefánsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andi Snær Stefánsson þjálfar nú kvennalið KA/Þórs í handbolta þriðja tímabilið sitt. Hann vann alla titla sem í boði voru fyrsta árið en nú er hann með allt öðruvísi lið í höndunum, borið uppi af kornungum leikmönnum.

Í kvöld steinlá KA/Þór í leik gegn Gjorche Petrov frá N-Makedóníu þegar liðin spiluðu seinni leik sinn í Evrópukeppninni. Lauk leiknum 34:23 en staðan var 16:8 í hálfleik. Liðin gerðu 20:20-jafntefli í fyrri leiknum, sem fram fór í gær og var því ótrúlega mikill munur á liðunum í dag. 

Andri Snær var lítið að kveinka sér eftir leik og hafði þetta að segja: „Í fyrri hálfleik þá var sóknarleikur okkar afleitur“ en þess má geta að KA/Þór tapaði tíu boltum á síðustu átján mínútum hálfleiksins. „Það verður að segjast eins og er að þar fór þetta einvígi. Við fengum á okkur allt of mikið af hraðaupphlaupum og auðveldum mörkum upp úr mistökum í sókninni. Við hreyfðum boltann hægt og vorum ekki að opna neitt. Við virkuðum bara þungar. Við byrjuðum seinni hálfleikinn á sömu nótum en breyttum svo í sjö á sex í sókninni. Þá alla vega fórum við að skora mörk og finna einhverjar lausnir. Við komumst þá örlítið nær þeim og fengum móment með okkur. En sóknarleikurinn í fyrri hálfleik fór með þetta.“ 

Einmitt það munaði átta mörkum í hálfleik en ellefu mörkum í lokin. 

„Engu að síður þá verðum við að horfa jákvætt á þessar viðureignir. Við höfum lent í alls kyns skakkaföllum upp á síðkastið en ætluðum bara að nota þessa leiki til að slípa liðið til enda með nokkra nýja leikmenn og leikmenn í nýjum stöðum. Það er eðlilegt að það sé hökt á leik okkar en þetta var of mikið í dag. Það var frábært fyrir yngri leikmennina okkar að fá þessa leiki. Það voru 16 og 17 ára leikmenn í stórum hlutverkum í dag og þeir geta tekið mikið út úr þessu. Við erum ánægð með það.“ 

Já það er þetta með ungu leikmennina. KA/Þór er nánast búið að missa heilt lið á síðustu mánuðum og margir góðir leikmenn eru horfnir á braut. Þetta er engin óskastaða fyrir þig sem þjálfara og það þarf breitt bak til að höndla svona. 

„Við erum nú ekkert að væla yfir því. Það hjálpar okkur ekkert. Nei það var alltaf ljóst að þetta tímabil yrði varið í uppbyggingu á nýju liði. Vegna meiðsla í leikmannahópnum þá eru ungu leikmennirnir okkar að spila mun meira en við höfðum ætlað. Verkefnið er bara þannig að við munum láta heimastúlkur spila þótt ungar séu. Það er alveg eðlilegt að það komi skrautlegir kaflar og við höfum þolinmæði fyrir því. Það er bara þroskandi fyrir þessar stelpur að vera í djúpu lauginni og við ætlum að gefa þeim tíma þar“ sagði Andri Snær að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert