Valur sneri blaðinu við í Slóvakíu

Thea Imani Sturludóttir var einu sinni sem oftar í lykilhlutverki …
Thea Imani Sturludóttir var einu sinni sem oftar í lykilhlutverki hjá Val í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valskonur eru komnar í þriðju umferð Evrópubikars kvenna í handknattleik eftir sigur á Dunajská Streda í seinni leik liðanna í Slóvakíu í kvöld, 31:24. 

Dunajská Streda vann fyrri leikinn í gærkvöld, 29:26, en hann taldist vera heimaleikur slóvakíska liðsins sem lék báða leikina á sínum heimavelli.

Slóvakar byrjuðu leikinn í kvöld á að komast í 3:0 en Valskonur svöruðu því af miklum krafti og staðan eftir 15 mínútur var 8:4, þeim í hag. Á lokakafla fyrri hálfleiks náðu þær slóvakísku áhlaupi, jöfnuðu metin í 11:11 og síðan í 13:13, áður en flautað var til leikhlés.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks og Dunajská komst yfir í fyrsta og eina skiptið í 17:16. Í kjölfarið komu fjögur Valsmörk í röð, staðan var þá 20:17, og síðan var staðan orðin 24:19, Val í hag, um miðjan síðari hálfleikinn.

Valur komst sex mörkum yfir í fyrsta sinn, staðan var þá 27:21, þegar fimm mínútur voru eftir og munurinn hélst í fimm til sex mörkum í framhaldi af því. Þegar Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði sitt fjórða mark í leiknum, og kom Val í 31:24, var sigurinn endanlega í höfn.

Thea Imani Sturludóttir skoraði 7 mörk fyrir Val, Mariam Eradze 5, Sara Dögg Hjaltadóttir 4, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Auður Gestsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Sara Helgadóttir 1 og Elín Rósa Magnúsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert