„Fyrstu tíu mínúturnar voru smá erfiðar, en eftir það vorum við með þá,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, markahæsti leikmaður Íslands í 36:21-heimasigri á Ísrael í undankeppni HM í handbolta, í samtali við mbl.is.
„Þeir eru með fínustu leikmenn, eins og við sjáum. Þeir skora eitthvað af mörkum. Þetta eru engin fífl. Ég þekki líka miðjumanninn, Yoav Lumbroso, nokkuð vel og ég vissi hvernig átti að taka á móti honum. Þeir eiga langt í langt í land með að ná okkur,“ sagði hann.
Kristján byrjaði á bekknum en spilaði mikið eftir að hann kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks, enda að leika glimrandi vel. Kristján skoraði sjö mörk, einu marki meira en Gísli Þorgeir Kristjánsson.
„Mér var sagt að spila bara og gera það sem ég geri best; skjóta á markið,“ sagði Kristján. Honum var síðan tjáð að hann hafi endað markahæstur, sem virtist koma honum nokkuð á óvart. „Já var það? Það fer mér vel að vera markahæstur,“ bætti hann léttur við.
Kristján hefur fá tækifæri fengið með landsliðinu undanfarin ár, þrátt fyrir gott gengi með Aix í Frakklandi. Hann var því staðráðinn í að nýta það í kvöld.
„Ég er búinn að vera rosalega þolinmóður. Ég ólst með Ómari, þannig maður þekkir það vel hvað það er að bíða. Um leið og maður fær sénsinn, þarf maður að nýta hann. Þetta er stærsta sviðið, að spila fyrir framan þjóðina,“ sagði hann.
Kristján verður í eldlínunni með Aix í Evrópubikarnum í vetur. Liðið verður með Íslandsmeisturum Vals í liði og var Kristján hinn kátasti að dragast með Val í riðli.
„Ég var himinlifandi. Ég fékk líka að vita það sama dag að ég myndi mæta Val og að ég hafi verið valinn í landsliðið. Það var mjög góður dagur og ég er mest spenntur fyrir því að spila á móti Val, sérstaklega á útivelli.
Það verður æðislegt að koma hingað, hitta fjölskylduna og fá alla vinina á leikinn, sem munu halda með mér þótt ég spili ekki fyrir íslenskt lið. Það verður gaman,“ sagði Kristján.