Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður, sýndi stórkostleg tilþrif í marki franska liðsins Nantes þegar liðið vann stórsigur á þýska liðinu Kiel í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í gær.
Í stöðunni 15:12 í fyrri hálfleik reyndi hinn þaulreyndi línumaður Kiel, Patrick Wiencek, að vippa boltanum yfir Viktor og tókst það í raun en íslenski landsliðsmarkvörðurinn var fljótur að bregðast við og náði á magnaðan hátt að blaka boltanum frá.
Viktor Gísli stóð í marki Nantes nær allan leikinn og varði 15 skot. Hann var með tæplega 35% markvörslu í leiknum.
Nantes komst upp í upp í annað sæti riðilsins með sigrinum.