Eigum að hlaupa yfir þær

Díana Dögg Magnúsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik á …
Díana Dögg Magnúsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik á Ásvöllum í dag. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

„Við eigum að keyra almennilega á þær og hlaupa yfir þær,“ sagði hægri skyttan Díana Dögg Magnúsdóttir, í samtali við mbl.is, þegar íslenska kvennalandsliðið í handknattleik æfði á Ásvöllum í dag.

Ísland leikur tvo mikilvæga leiki gegn Ísrael á Ásvöllum um helgina í forkeppni heimsmeistaramótsins. Þeir hefjast klukkan 15 á laugardag og sunnudag og aðgangur á leikina er ókeypis.

Sigurliðið úr viðureigninni fer í umspilsleiki í apríl á næsta ári um sæti í lokakeppninni, sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð að ári. Í umspilið bætast við lið úr Evrópumótinu, sem hófst í gær og lýkur 20. nóvember. Dregið verður í umspilinu að loknu Evrópumótinu.

Það var létt yfir íslensku stelpunum á Ásvöllum í dag.
Það var létt yfir íslensku stelpunum á Ásvöllum í dag. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

„Það eru nýir leikmenn í þeirra liði og nýr þjálfari svo óvissan er einhver en þá er fínt að spila tvo leiki og skerpa á hlutunum á milli leikja ef með þarf.“

Díana sagði það hafa verið gott að fá mikinn tíma saman til undirbúnings sem lið og gott að fá leikina í Færeyjum til að vinna í því sem betur mátti fara og hamra á því sem fyrir var gott.

Vill spila í skyttustöðunni

Íslenska liðið lék tvo vináttulandsleiki gegn því færeyska í ferðinni. Leikirnir unnust báðir með fimm marka mun. Díana lék vel í leikjunum tveimur. Hún skoraði sex mörk í seinni leiknum og var markahæst í íslenska liðinu. Hún sagðist vera ánægð með aukin spiltíma og fá að spila í skyttustöðunni.

„Við löguðum það sem þurfti að laga á milli leikja. Mín staða í liðinu hefur verið í horninu en ég er ánægð með að fá að spila í skyttustöðunni. Kannski hef ég sýnt það með góðri spilamennsku úti að ég eigi fullt erindi í þá stöðu.“

Díana Dögg Magnúsdóttir mundar skothöndina í leik gegn Serbíu síðasta …
Díana Dögg Magnúsdóttir mundar skothöndina í leik gegn Serbíu síðasta haust. Ljósmynd/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert