„Við gerðum margar breytingar frá leiknum á laugardaginn,“ sagði Oliynik Yevgeny, þjálfari ísraelska kvennalandsliðsins í handknattleik, eftir síðari leikinn við Ísland á Ásvöllum í dag en Ísrael tapaði báðum leikjunum í gær og dag með samtals sautján marka mun.
Þjálfarinn sagði sitt lið hafa staðið sig vel í 46 mínútur. „Við breyttum vörninni úr flatri 6-0-vörn yfir í að vera með einn leikmann framar í 5-1-vörn og skiptum svo aftur um vörn. Leikurinn var jafn í fjörtíu og sex mínútur, það var bara munur þegar Ísland skoraði, en andlega var mitt lið þroskaðra en fyrir þessa leiki. Á móti vorum við ekki eins líkamlega sterkar gagnvart íslenska liðinu en við gáfum yngri leikmönnum færi á að spreyta sig í tíu mínútur því þetta var fyrsti leikurinn fyrir margar stúlkurnar sem sumar voru jafnvel aðeins nítján ára gamlar,“ bætti þjálfarinn við.
Ísrael hefur ekki náð að spila nema örfáa leiki síðustu tæpu þrjú árin, meðal annars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og vandamála við að útvega fjármagn. Liðið náði að spila við Lúxemborg og Færeyjar fyrir einu og hálfu ári en síðan enga æfingaleiki.