Frakkar í undanúrslit með stæl

Paulette Foppa skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir Frakkland …
Paulette Foppa skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir Frakkland í kvöld. AFP/Robert Atanasovski

Frakkland tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum EM 2022 í handknattleik kvenna með því að hafa betur gegn Þýskalandi, 29:21, í milliriðli 2 í Skopje í Norður-Makedóníu.

Frakkland leiddi með fjórum mörkum, 13:9, í leikhléi og hleypti Þjóðverjum aldrei nær sér en tveimur mörkum í síðari hálfleik.

Undir lokin bættu Frakkar einungis í og niðurstaðan varð að lokum góður átta marka sigur.

Orlane Kanor skoraði fimm mörk fyrir Frakkland og þær Coralie Lassource og Pauletta Foppa fjögur mörk hvor.

Cléopatre Darleux varði tíu skot í marki Frakklands.

Markahæst í leiknum var Alina Grijseels með sjö mörk fyrir Þýskaland.

Frakkland fylgir þar með Svartfjallalandi og Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, í undanúrslitin.

Á morgun kemur í ljós hvort Danmörk, Svíþjóð eða Slóvenía verði fjórða liðið í undanúrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert