Benedikt Gunnar Óskarsson átti stórleik fyrir Val þegar liðið tók á móti þýska stórliðinu Flensburg í B-riðli Evrópudeildarinnar í Origo-höllinni á Hlíðarenda í 3. umferð keppninnar í kvöld.
Leiknum lauk með fimm marka sigri Flensburg, 37:32, en Benedikt Gunnar skoraði 9 mörk í leiknum, þar af þrjú af vítalínunni.
Leikurinn fór af stað með miklum látum og það var Benedikt Gunnar Óskarsson sem skoraði fyrsta mark leiksins úr víti.
Flensburg skoraði þá þrjú mörk í röð en Valsmenn svöruðu um hæl og Magnús Óli Magnússon jafnaði metin í 6:6 þegar tólf mínútur voru liðnar af leiknum.
Mikið jafnræði var með liðunum eftir þetta en þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik kom Johan Hansen Flensburg þremur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 14:11.
Valsmönnum tókst hins vegar að laga stöðuna undir lok hálfleiksins og Flensburg leiddi 18:16 í hálfleik.
Þjóðverjarnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur og August Pedersen kom Flensburg aftur þremur mörkum yfir, 19:16, með fyrsta marki seinni hálfleiksins.
Þjóðverjarnir voru áfram með yfirhöndina og Teitur Örn Einarsson kom Flensburg fjórum mörkum yfir, 23:19, þegar rúmlega tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Simon Hald kom Flensburg svo fimm mörkum yfir með marki af línunni þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 29:25, og eftir það var róðurinn þungur fyrir Valsmenn.
Emil Jakobsen jók forskot Flensburg í sex mörk með marki úr víti þegar tíu mínútur voru til leikslokaen Valsmönnum tókst að laga stöðuna á lokamínútunum og lokatölur á Hlíðarenda 37:32.
Stiven Tobar Valencia skoraði 6 mörk fyrir Valsmenn og þá var Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson markahæstur hjá Flensburg með 7 mörk.
Valsmenn eru áfram með 4 stig í öðru sæti riðilsins en Flensburg er með fullt hús stiga í efsta sætinu.