Sænsku meistararnir sterkari í lokin gegn Val

Arnór Snær Óskarsson skorar eitt sjö marka sinna í fyrri …
Arnór Snær Óskarsson skorar eitt sjö marka sinna í fyrri hálfleik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslands- og bikarmeistarar Vals máttu þola 29:32-tap fyrir Svíþjóðarmeisturum Ystad í B-riðli Evrópudeildar karla í handbolta. Ystad er í öðru sæti riðilsins með sjö stig og Valur í fjórða með fimm.

Jafnt var á öllum tölum í upphafi leiks og var mikið jafnræði með liðunum. Valur var fyrra liðið til að ná tveggja marka forskoti í stöðunni 11:9 og var það fyrst og fremst mögnuðum leik Arnórs Snæs Óskarssonar að þakka. Björgvin Páll Gústavsson var einnig öflugur á milli stanganna.

Arnór skoraði sjö af fyrstu tólf mörkum Valsmanna, en þegar hann kólnaði aðeins fór Ystad að sækja í sig veðrið. Með 4:1-kafla tókst sænska liðinu að komast yfir, 15:14. Var það einmitt munurinn í hálfleik, 16:15.

Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu mest fimm marka forskoti, 24:19. Tjörvi Týr Gíslason fékk beint rautt spjald á góðum kafla Ystad og Valsmenn áttu erfitt uppdráttar. Þeir neituðu þó að gefast upp og náðu að minnka muninn í eitt mark, 26:25, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Svíarnir voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og með skynsömum leik tókst þeim að sigla útisigri í höfn.  

Arnór Snær Óskarsson fór á kostum fyrir Val og skoraði 13 mörk. Tryggvi Garðar Jónsson gerði fimm og Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot í markinu, þar af tvö víti. 

Valur 29:32 Ystad opna loka
60. mín. Kim Anderson (Ystad) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert