Benedikt Gunnar Óskarsson, handknattleiksmaður hjá Val, fór meiddur af velli undir lok leiks Íslands- og bikarmeistaranna og Svíþjóðarmeistara Ystad í Evrópudeildinni í gærkvöldi.
Var óttast að Benedikt væri ristarbrotinn, en hann staðfesti við mbl.is rétt í þessu að hann hafi sloppið við brot. Mun hann fara í frekari myndatökur á morgun, þar sem skoðuð verða möguleg liðbandsmeiðsli.
Benedikt, sem er tvítugur, hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir góða frammistöðu með Val í keppninni til þessa. Skoraði hann t.a.m. níu mörk gegn þýska stórliðinu Flensburg og átta mörk gegn ungverska liðinu Ferencváros.