Tryggvi sá eini í sigurliði í Svíþjóð

Tryggvi Þórisson í leik með Selfossi á síðasta tímabili.
Tryggvi Þórisson í leik með Selfossi á síðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í kvöld. Fór svo að aðeins einn þeirra, Tryggvi Þórisson, var í sigurliði.

Tryggvi komst ekki á blað hjá Sävehof en stóð fyrir sínu í vörninni sem endranær þegar liðið vann góðan 37:33-útisigur í toppslag gegn Kristianstad.

Hann fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir í leiknum og þar með rautt spjald.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði þrjú mörk fyrir Skövde sem mátti sætta sig við 26:30-tap á heimavelli fyrir Alingsås.

Loks komst Ásgeir Vignisson ekki á blað hjá Helsingborg, sem tapaði 27:32 fyrir Eskilstuna Guif.

Kristianstad er sem fyrr á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 16 leiki en Sävehof kemur þar á eftir með 26 stig eftir jafnmarga leiki.

Skövde er í 7. sæti með 15 stig og Helsingborg í 11. sæti með 11, en 14 lið eru í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert