Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, er á heimleið og verður kynntur sem leikmaður FH á blaðamannafundi síðar í dag. Hann gengur svo formlega í raðir uppeldisfélagsins í sumar.
Þetta herma heimildir Vísis. Landsliðsfyrirliðinn kemur til FH frá Álaborg í Danmörku, en hann gekk í raðir félagsins frá Barcelona á síðasta ári. Aron er 32 ára og hefur verið einn allra besti handknattleiksmaður Íslands undanfarin ár.
Aron er uppalinn hjá FH og lék með liðinu til ársins 2009. Var hann þá valinn besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar, sem og besti sóknarmaður hennar. Eftir það lá leiðin til Kiel í Þýskalandi og síðan Veszprém í Ungverjalandi, áður en hann samdi við Barcelona og loks Álaborg.
Á afar farsælum ferli hefur Aron m.a. unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang og fjölmarga landstitla í Þýskalandi, Ungverjalandi og á Spáni.