Handknattleiksmaðurinn Kristján Orri Jóhannsson er genginn til liðs við 1. deildarlið Víkings í handknattleik og samdi við félagið til loka tímabilsins 2024.
Kristján Orri kemur til Víkings frá ÍR sem hann hefur leikið með meira og minna frá árinu 2017 en hefur ekkert spilað með liðinu í úrvalsdeildinni í vetur.
Hann er 29 ára gamall, leikur sem skytta hægra megin, en áður sem hornamaður, og varð markakóngur 1. deildarinnar tímabilið 2020-21 og hefur verið valinn besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár. Kristján lék með liði Kríu í 1. deildinni 2020-21 og tók þátt í að tryggja liðinu óvænt sæti í úrvalsdeildinni, sem félagið síðan nýtti sér ekki og hætti keppni.
Kristján Orri lék með Akureyringum í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við ÍR á sínum tíma og var á meðal markahæstu leikmanna úrvalsdeildarinnar öll árin þar. Áður lék hann með Gróttu.
Víkingar eru í þriðja sæti 1. deildar, sex stigum á eftir toppliði HK.