Halldór Stefán Haraldsson mun ekki framlengja samning sinn við Volda, þar sem hann hefur verið þjálfari kvennaliðsins í handknattleik undanfarin sjö ár. Halldór Stefán lætur því af störfum í sumar, þegar samningur hans rennur út.
Halldór Stefán hefur unnið mikið þrekvirki með Volda þar sem hann hefur stýrt liðinu upp úr C-deild og í úrvalsdeildina, þar sem liðið leikur nú.
„Ég er ekki alveg hættur enn þá. Ég vil að Volda spili einnig í úrvalsdeildinni á næsta tímabili og ég verð ekki sáttur fyrr en það er í höfn,“ sagði Halldór Stefán í samtali við staðarblaðið Møre-Nytt.
Í kvöld voru leikmenn Íslendingaliðs Volda látnir vita að hann myndi ekki halda áfram sem þjálfari og kvaðst Halldór Stefán hafa viljað láta forráðamenn félagsins vita snemma svo leit að þjálfara gæti þegar hafist.
Katrín Tinna Jensdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Dana Margrét Guðmundsdóttir eru allar leikmenn Volda, sem er sem stendur á botni norsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir 12 leiki.
Helstu ástæðurnar fyrir því að Halldór Stefán, sem er 32 ára, ákveður að láta staðar numið í sumar tengjast fjölskyldunni, en hann býr með eiginkonu sinni Söru og syni þeirra Haddi í Volda.
„Þetta eru tvær flugferðir fyrir okkur til þess að komast heim til Íslands og það er mjög löng ferð. Upphaflega áttum við bara að vera í Volda í tvö ár.
Það var aldrei ætlunin að vera hér að eilífu en það eru sjö ár síðan við komum, sem okkur virðist stuttur tími. Og leiðin úr C-deild og upp í úrvalsdeild hefur verið ótrúleg.
Það er einhvern veginn aldrei réttur tímapunktur til þess að láta staðar numið en okkur fannst þetta góður tími til þess að taka ákvörðun,“ sagði Halldór Stefán einnig.
Spurður hvort fjölskyldan muni halda aftur til Íslands í sumar sagði hann: „Það hefur ekki verið ákveðið.“