Gamla ljósmyndin: Í úrvalsliði HM í Svíþjóð

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Heimsmeistarakeppni karla í handknattleik fer nú fram í Svíþjóð eins og landsmenn vita. Svíar héldu einnig HM karla fyrir þrjátíu árum síðan en þá fór keppnin fram í mars. 

Ísland komst í lokakeppnina enda hafði liðið náð frábærum árangri á Ólympíuleikunum sumarið áður og lék um verðlaun. Raunar má segja að Ísland hafi tvívegis unnið sig inn á HM 1993. Fyrst í B-keppninni í Austurríki snemma árs árið 1992 en þar náði liðið þriðja sæti og þar með sæti á HM í Svíþjóð 1993. Þegar stríð braust út í gömlu Júgóslavíu misstu Júgóslavar keppnisrétt í öllum greinum á Ólympíuleikunum í Barcelona sumarið 1992 og fékk Ísland sæti Júgóslava í handknattleikskeppni leikanna. 4. sætið í þeirri keppni hefði einnig gefið keppnisrétt á HM í Svíþjóð. 

Ísland hafnaði í 8. sæti á HM fyrir þremur áratugum síðan. Ísland vann Bandaríkin og Ungverjaland í riðlakeppninni en tapaði fyrir Svíþjóð. Í milliriðli tapaði Ísland fyrir Þýskalandi og Rússlandi en vann Danmörku. Í leiknum um 7. sætið tapaði Ísland fyrir Tékklandi. 

Upp úr stóð að hægri hornamaðurinn Bjarki Sigurðsson var valinn í úrvalslið mótsins að keppninni lokinni. Í úrvalsliði HM 1993 voru auk Bjarka Spánverjarnir Lorenzo Rico og Mateo Garralda, Marc Baumgartner frá Sviss, sænski galdramaðurinn Magnus Andersson og Rússarnir Dimitri Torgovanov og Valerij Gopin en Rússar urðu heimsmeistarar. 

Skapti Hallgrímsson spurði Bjarka í Morgunblaðinu hvort hann væri ekki að rifna úr monti eftir útnefninguna?  „Jú, ég er óneitanlega að rifna úr monti. Það er ekki hægt að neita því. Þetta er auðvitað gífurlegur heiður, og kom mér mjög á óvart,“ svaraði Bjarki. 

Á meðfylgjandi mynd er Bjarki Sigurðsson á flugi inn úr hægra horninu í leik gegn Spáni á HM í Tékkóslóvakíu þremur árum fyrr. Bjarki bjó yfir afar góðum stökkkrafti sem hann nýtti sér vel og gat hæglega stillt sig af í loftinu ef andstæðingarnir voru að trufla hann á leiðinni inn úr horninu.  Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði HM 1990 fyrir Morgunblaðið. 

Landsliðsferill Bjarka náði mestum hæðum þegar honum hlotnaðist þessi heiður á HM í Svíþjóð en hann missti af nokkrum stórmótum vegna meiðsla. Hér heima reis ferill Bjarka væntanlega hæst þegar hann var lykilmaður í liði Aftureldingar sem sigraði þrefalt árið 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert