Von á hörkuleik í Mosfellsbæ

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson í harðri baráttu …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson í harðri baráttu í fyrri leik liðanna í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Afturelding og Fram mætast í eina leik Olísdeildar karla í handknattleik í Mosfellsbænum í kvöld.

Vænta má þess að um hörku nágrannaslag verði að ræða þar sem liðin eru á svipuðum stað í deildinni.

Afturelding er í þriðja sæti með 17 stig eftir 13 leiki og getur með sigri í kvöld jafnað FH, sem er í öðru sæti, að stigum.

Fram er í fimmta sæti með 15 stig eftir 14 leiki og getur með sigri í kvöld komist upp að hlið Aftureldingar.

Um síðari leik liðanna í deildinni er að ræða þar sem Fram vann fyrri leikinn í Úlfarsárdal, 28:26.

Hvorugt liðið hefur leikið í deildinni á árinu eftir HM-hlé og verður því áhugavert að sjá hvernig þau mæta til leiks eftir tæplega tveggja mánaða hlé.

Leikurinn fer fram í íþróttamiðstöðinni að Varmá í Mosfellsbæ og hefst klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert