Kristján Örn Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Aix þegar liðið heimsótti Ferencváros í B-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik, riðli Valsmanna, í Ungverjalandi í kvöld.
Leiknum lauk með þriggja marka sigri Ferencváros, 28:25, en með sigrinum jafnaði ungverska liðið Valsmenn að stigum í fimmta sætinu en bæði lið eru með fimm stig.
Þá er Ystad komið í annað sæti riðilsins og tíu stig alls eftir sigur gegn Benidorm í Svíþjóð, 36:30.
Valsmenn mæta Flensburg í kvöld í Þýskalandi en efstu fjögur lið riðilsins komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar.