Patryk Rombel hefur verið rekinn sem landsliðsþjálfari pólska karlaliðsins í handbolta eftir vonbrigðamót á HM á heimavelli í síðasta mánuði.
Pólland hélt mótið ásamt Svíþjóð og hafnaði í 15. sæti, sem voru mikil vonbrigði. Eins og mörg önnur lið, þar á meðal það íslenska, ætlaði pólska liðið sér að fara í átta liða úrslit.
Rombel tók við pólska liðinu fyrir fjórum árum og stýrði því til 12. sætis á EM á síðasta ári. Marcin Lijewski, sem lék m.a. með Flensburg og pólska landsliðinu, er talinn líklegur eftirmaður Rombel, en Lijewski þjálfaði síðast Górnik Zabrze í heimalandinu.