Viðureign Stjörnunnar og ÍBV í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik hefur verið frestað um sólarhring, annan daginn í röð.
Liðin áttu upphaflega að mætast í Garðabæ í dag en leiknum var frestað til morguns vegna erfiðleika í samgöngum til og frá Vestmannaeyjum.
Nú hefur leiknum verið frestað á ný um sólarhring og nýr leikdagur er föstudaginn 10. febrúar klukkan 18.00.
Selfoss komst fyrst liða í undanúrslit keppninnar í gær og tveir leikir fara fram í kvöld þegar Víkingur tekur á móti Haukum í Safamýri klukkan 19.30 og Fram mætir Val í Úlfarsárdal klukkan 20.