Haukar og Stjarnan skildu jöfn, 33:33, þegar liðin áttust við í Olísdeild karla í handknattleik að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Gestirnir úr Garðabæ byrjuðu betur og náðu þriggja marka forystu, 8:5, þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður.
Haukar sneru taflinu hins vegar við og komust í 10:9. Eftir það var allt í járnum en heimamenn leiddu með einu marki, 16:15, í hálfleik.
Hafnfirðingar hófu síðari hálfleik af krafti og voru fljótlega komnir með fjögurra marka forystu, 21:17.
Heimamenn voru áfram við stjórn eftir því sem líða tók á hálfleikinn og hleyptu Stjörnumönnum lengi vel ekki nær sér en tveimur mörkum.
Þegar skammt var eftir náði Stjarnan hins vegar að minnka muninn niður í eitt mark, 31:30, og jafnaði svo metin í 32:32.
Brynjólfur Snær Brynjólfsson kom Haukum aftur í forystu en á lokasekúndunni skoraði Gunnar Steinn Jónsson úr vítakasti og var jafntefli því niðurstaðan.
Markahæstur hjá Haukum var Andri Már Rúnarsson með átta mörk.
Tandri Már Konráðsson skoraði sömuleiðis átta mörk fyrir Stjörnuna.
Haukar fóru með jafnteflinu upp í sjöunda sæti þar sem liðið er með 14 stig. Stjarnan fór upp í fjórða sæti og er nú með 17 stig.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 8, Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Heimir Óli Heimisson 4, Össur Haraldsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Adam Haukur Baumruk 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 5, Matas Pranckevicius 5.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 8, Gunnar Steinn Jónsson 5, Hergeir Grímsson 4, Starri Friðriksson 3, Pétur Árni Hauksson 3, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Þórður Tandri Ágústsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Hjálmtýr Alfreðsson 1, Björgvin Þór Hólmgeirsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 11, Arnór Freyr Stefánsson 3.