Stórleikur Gísla dugði ekki til

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM …
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM 2023 í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur þegar lið hans Magdeburg mátti sætta sig við tap með minnsta mun, 24:25, fyrir pólska liðinu Wisla Plock í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld.

Gísli Þorgeir skoraði sjö mörk fyrir Þýskalandsmeistara Magdeburg, sem er í þriðja sæti riðilsins með 14 stig að loknum ellefu leikjum.

Var hann markahæstur allra í leiknum.

Ómar Ingi Magnússon er sem kunnugt er meiddur og lék því ekki með Magdeburg.

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í Meistaradeildinni í kvöld.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark í 33:27-sigri Aalborg á ungverska liðinu Pick Szeged í B-riðlinum.

Sigurinn var kærkominn fyrir Aalborg þar sem liðið hafði tapað fjórum leikjum í röð fyrir sigur kvöldsins.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði tvö mörk fyrir Noregsmeistara Elverum sem steinlá fyrir stórliði Barcelona, 30:40.

Loks varði Viktor Gísli Hallgrímsson sjö skot í marki Nantes þegar liðið tapaði óvænt á heimavelli, 31:32, fyrir slóvenska liðinu Celje.

Í B-riðlinum er Nantes í þriðja sæti með 12 stig, Aalborg í því fimmta með níu stig og Elverum er á botninum með tvö stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert