Afturelding vann sex marka útisigur á Gróttu, 31:25, í Olísdeild karla í handknattleik í dag.
Mosfellingar byrjuðu betur og náðu fljótlega 2-3 marka forystu. Er leið á fyrri hálfleikinn jók Afturelding aðeins forystu sína og fór inn í hálfleik fimm mörkum yfir, 16:11.
Gróttu-liðið komst aldrei nálægt Mosfellingum sem héldu forystu sinni í fjórum til fimm mörkum fyrra korterið af seinni hálfleiknum. Er leið á bætti Afturelding við mörkum og komst mest níu mörkum yfir, 30:21, á 54. mínútu.
Gróttumenn luku leiknum betur og skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins en það var of seint og Mosfellingar taka tvö stigin með sér heim.
Gróttumaðurinn Birgir Steinn Jónsson var markahæsti maður leiksins með sjö mörk. Einar Ingi Hrafnsson og Árni Bragi Eyjólfsson voru markahæstir í liði Aftureldingar með fimm mörk hvor.
Afturelding jafnar FH að stigum í öðru sætinu með 19 stig en Hafnfirðingar eiga leik til góða. Grótta er í níunda sæti deildarinnar með 11 stig.
Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 7, Theis Koch Sondergard 6, Ari Pétur Eiríksson 3, Andri Þór Helgason 3, Jóel Bernburg 2, Hannes Grimm 1, Antoine Óskar Pantano 1, Ágúst Emil Grétarsson 1, Akimasa Abe 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 6, Ísak Arnar Kolbeins 1.
Mörk Aftureldingar: Einar Ingi Hrafnsson 5, Árni Bragi Eyjólfsson 5, Blær Hinriksson 4, Bergvin Þór Gíslason 4, Birkir Benediktsson 4, Gestur Ólafur Ingvarsson 3, Ihor Kopyshynskyi 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Haraldur Björn Hjörleifsson 1.
Varin skot: Jovan Kukubat 8, Brynjar Vignir Sigurjónsson 2.