Hörður og ÍR gerðu jafntefli, 30:30, í Olísdeild karla í handknattleik á Ísafirði í dag.
Harðarliðið byrjaði mun betur og komst eftir rúmar tíu mínútur fjórum mörkum yfir, í 8:4, og svo sex mörkum yfir, í 13:7, tíu mínútum síðar. ÍR-ingar unnu sig svo aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í aðeins tvö mörk í hálfleik, í 13:15.
Hörður komst svo aftur fjórum mörkum yfir snemma í seinni hálfleik en á 42. mínútu jafnaði ÍR metin, 20:20. Liðin skiptu svo á milli sín mörkunum það sem eftir lifði leiks og skildu að lokum jöfn, 30:30.
ÍR-ingurinn Dagur Sverrir Kristjánsson var langmarkahæstur í leiknum með 11 stykki. Suguru Hikawa var markahæstur í liði Harðar með sex mörk.
Þetta er aðeins annað stig Harðar í deildinni sem er nú með tvö stig í neðsta sæti. ÍR-ingar eru í næstneðsta sæti með sex stig.
Mörk Harðar: Suguru Hiwaka 6, Mikel Amilibia Aristi 5, Leó Renaud-David 4, Guntis Pilpuks 3, Daníel Wale Adeleye 3, Jón Ómar Gíslason 3, Victor Iturrino 2, Jóse Esteves Neto 2, Axel Sveinsson 1, Óli Björn Vilhjálmsson 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 7, Emannuel Evangelista 1.
Mörk ÍR: Dagur Sverrir Kristjánsson 11, Viktor Sigurðsson 6, Sveinn Brynjar Agnarsson 5, Friðrik Hólm Jónsson 3, Úlfur Gunnar Kjartansson 3, Róbert Snær Örvarsson 1, Arnar Freyr Guðmundsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 12.