Einar Bragi Aðalsteinsson átti stórleik fyrir FH þegar liðið heimsótti Fram í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Úlfarsárdal í 15. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með tveggja marka sigri FH, 28:26, en Einar Bragi gerði sér lítið fyrir og skoraði 10 mörk í leiknum.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að skora. FH-ingar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 14:11.
Frömurum tókst að vinna upp forskot FH-inga og var staðan 21:20, FH í vil, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Hafnfirðingar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri.
Phil Döhler átti stórleik í marki FH, varði 15 skot og var með 39% markvörslu, en Marko Coric var markahæstur hjá Frömurum með 7 mörk.
FH er með 21 stig í öðru sæti deildarinnar en Framarar eru í fimmta sætinu með 17 stig.
Mörk Fram: Marko Coric 7, Reynir Þór Stefánsson 5, Kjartan Þór Júlíusson 3, Stefán Orri Arnalds 3, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 3, Luka Vukicevic 2, Stefán Darri Þórsson 1, Ívar Logi Styrmisson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 5, Arnór Máni Daðason 2.
Mörk FH: Einar Bragi Aðalsteinsson 10, Birgir Már Birgisson 6, Ásbjörn Friðriksson 4, Jakob Martin Ásgeirsson 3, Jóhannes Berg Andrason 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Daníel Matthíasson 1.
Varin skot: Phil Döhler 15.