Fyrirliði Tyrklands lést ásamt syni sínum

Feðgarnir Cinar og Cemal Kütahya á góðri stundu.
Feðgarnir Cinar og Cemal Kütahya á góðri stundu. Ljósmynd/IHF

Cemal Kütahya, fyrirliði tyrkneska karlalandsliðsins í handknattleik, fannst látinn undir rústum íbúðarbyggingar sem hrundi eftir jarðskjálftana í Tyrklandi í síðustu viku. Fimm ára sonur hans, Cinar, fannst einnig látinn.

Kütahya, sem var 32 ára gamall, var sömuleiðis fyrirliði strandhandboltaliðs Tyrklands.

„Það er með mikilli sorg í hjarta sem við fréttum af fráfalli Cemal Kütahya, fyrirliða karlaliðs okkar í handknattleik og strandhandbolta, og fráfalli sonar hans, Cinar Kütahya, sem grófust undir rústum hússins sem þeir bjuggu í, í bænum Antakya,“ sagði í yfirlýsingu frá Handknattleikssambandi Tyrklands.

Cemal var lykilmaður hjá báðum ofangreindum landsliðum og lék við góðan orðstír í heimalandinu fyrir Ankaraspor, Beykoz, Belediyesi og nú síðast Hatay Büyüksehir Belediyespor, toppliðs tyrknesku úrvalsdeildarinnar.

Einnig var hann á mála hjá rúmenska félaginu Suceava um skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert