Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, mun ekki láta meiðsli á hönd aftra sér frá því að taka þátt í mikilvægum leik liðsins gegn Benidorm í Evrópudeildinni í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
Valur er með fimm stig að loknum sjö leikjum í B-riðli. Fjögur þeirra unnust í fyrstu tveimur umferðunum með sigrum á Ferencváros á heimavelli og Benidorm á útivelli.
Liðið hefur þrátt fyrir það leikið vel og verið nálægt því að vinna sér inn fleiri stig. Hvað hefur vantað upp á þar?
„Auðvelda svarið er, svolitla reynslu í svona leikjum. Það eru reynslumiklir leikmenn hérna heima en þú sérð svona lið eins og Flensburg, sem er með frábært handboltalið og reynslumikið.
Þó þeir séu í vandræðum í mörgum leikjum, til dæmis á móti okkur þar sem við vorum yfir á tímapunkti, þá einhvern veginn mjaka þeir þessu í hús á reynslunni. Vita nákvæmlega hvernig á að vinna þetta, ná að spara orku á ákveðnum stöðum,“ sagði Björgvin Páll í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund Vals í gær.
„Við erum náttúrlega með reynslulítið lið þegar kemur að Evrópukeppnum. Heilt yfir höfum við spilað frábærlega í öllum þessum leikjum í Evrópu. Það að vera í leik í Flensburg á móti Flensburg segir helvíti mikið um liðið okkar. Svo missum við 2-3 leikmenn í meiðsli, þetta er búið að vera svolítið bras hvað það varðar.
Við höfum haldið standardinum heima, sem er jákvætt og sýnir gæði leikmannanna. En svo kemur auðvitað að því að dreifa álagi og þegar svona mikið álag er þá hefur stundum vantað nokkrar orkusellur í restina á leikjum. En það er eitthvað sem við finnum ekki sérstaklega fyrir hérna heima.
Við erum með frábært lið og þó að það vanti 2-3 þá erum við alltaf með góða menn á bak við til að stíga inn. Við mætum kokhraustir og trúum því að við getum náð í tvö stig á morgun [í kvöld],“ hélt hann áfram.
Í leik með Val á dögunum fékk Björgvin Páll risavaxinn skurð á milli vísifingurs og löngutangar og þurfti af þeim sökum að sauma nokkur spor.
„Ég ætla að láta vaða á þetta. Þó svo að læknirinn hafi ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af því þá gaf hann mér nú samt grænt ljós. Hann spurði mig hvenær leikurinn væri, ég sagði að hann væri á þriðjudag. Hann spurði svo hvenær næsti leikur væri og ég sagði: „Á föstudaginn.“ Hvenær er svo næsti leikur? Á þriðjudaginn aftur.
Þá sagði hann: „Þá sé ég þig á næsta þriðjudag, föstudag og svo þriðjudag aftur.“ Það þarf nú ekki mikið til að saumarnir rifni upp. En maður þarf stundum að fórna sér í þetta. Menn eru að berjast um ýmislegt, hvort sem það er í okkar liði eða öðrum liðum. En þetta er bara „smotterí“ miðað við hvað margir eru að ganga í gegnum,“ sagði hann um meiðslin.
„Það fylgir þessu sársauki og að mörgu leyti vanlíðan að ganga í gegnum svona þrautseigjutímabil eins og þetta tímabil er búið að vera hjá okkur. Það eru allir að leggja allt sem þeir eiga í þetta.
Hvað gerist eftir þetta kemur bara í ljós en þetta er ekki neitt sem mun skemma neitt fyrir mér í framhaldinu. Í versta falli mæti ég upp á slysadeild og læt sauma þetta aftur,“ sagði Björgvin Páll glettinn að lokum.