Valur vann gríðarlega mikilvægan sigur á spænska liðinu Benidorm, 35:29, í 8. umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
Valsmenn byrjuðu leikinn illa og þá sérstaklega sóknarlega. Færanýtingin var langt frá því sem við eigum að venjast frá þeim en eftir 13 og hálfa mínútu tók Snorri Steinn Guðjónsson leikhlé í stöðunni 7:3, gestunum í vil. Eftir leikhléið hrökk Valsvélin í gang og við fengum að sjá liðið sem við könnumst svo vel við. Vörnin varð töluvert þéttari og um leið fór Björgvin Páll Gústavsson að verja. Með því fylgdu svo auðveld mörk úr hraðaupphlaupum, bæði í opið mark þegar Benidorm tók markmanninn af velli í undirtölunni og ekki.
Á 21. mínútu fékk fyrirliði Vals, Alexander Örn Júlíusson, að líta beint rautt spjald. Hann var þá í miklum barningi við sóknarmann gestanna. Eftir að þeir höfðu klárað sóknina skömmu síðar kölluðu norsku dómarar leiksins á Alexander og sendu hann í sturtu. Það var ekki nokkur leið að sjá á staðnum hvort dómurinn væri réttur eða ekki en dómararnir virtust handvissir í sinni sök. Þetta sló Valsmenn þó ekki út af laginu en þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik leiddu þeir með tveimur mörkum, 17:15.
Seinni hálfleikurinn byrjaði svo eins og góð framhaldsmynd af fyrri hálfleik en Valur hélt uppteknum hætti og jók forskotið hægt og rólega. Benidorm spilaði mikið sjö á móti sex í sókn og tókst Valsmönnum að nýta sér það vel með auðveldum mörkum í bakið á þeim. Þetta reyndist þegar uppi var staðið banabiti Spánverjana en Valsmenn gengu rækilega á lagið og náðu upp góðu forskoti sem gerði út um leikinn. Lokatölur 35:29 en smá kæruleysi undir lok leiks gaf Spánverjunum tækifæri til að laga stöðuna örlítið.
Magnús Óli Magnússon átti frábæran leik í Valsliðinu en hann var markahæstur með 8 mörk og Benedikt Gunnar Óskarsson kom næstur með 7. Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í markinu og varði 13 skot. Hjá gestunum var Ramiro Martínez markahæstur með 7 mörk.
Með sigrinum fer Valur upp í þriðja sæti riðilsins, upp fyrir Ferencváros og Aix, sem tapaði fyrir Flensburg í kvöld. Valur á eftir að spila við Aix á heimavelli og Ystad á útivelli og er ljóst að Valur þarf að öllum líkindum að vinna annan þeirra, ætli liðið sér áfram.