Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir sigur gegn Benidorm, 35:29, í áttundu umferð B-riðils Evrópudeildar karla í handbolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
Valsliðið var lengi í gang en þegar leið á fyrri hálfleikinn hrökk liðið í gang, komst yfir og gekk svo frá leiknum í kjölfarið.
„Já við byrjuðum illa og Benidorm spilaði vel. Við vorum að brenna af góðum færum og vorum ekki sjálfum okkur líkir. Þegar við náðum svo að þétta vörnina og fá auðveld mörk fengum við sjálfstraust og það var mikilvægt fyrir okkur að vera yfir í hálfleik.
Við gerðum smávægilegar breytingar í hálfleik og seinni hálfleikurinn var miklu betri en fyrri hálfleikur. Það var gott að geta aðeins róterað liðinu í restina og ná þannig smá hvíld.“
Snorri tók leikhlé eftir einungis 13 og hálfa mínútu í stöðunni 7:3, gestunum í vil. Eftir það skánaði leikur Valsmanna svo um munaði.
„Ég var ekki sáttur með okkar frammistöðu. Við brugðumst ekki nógu vel við hlutum sem við vissum að þeir myndu gera og ég vildi bara aðeins skerpa á okkar leik.“
Alexander Örn Júlíusson, fyrirliði Vals, fékk að líta beint rautt spjald eftir rúmlega 20 mínútna leik. Atvikið sást mjög illa úr stúkunni og voru allir á vellinum og í stúkunni gapandi hissa þegar spjaldið fór á loft.
„Ég sá þetta ekki nægilega vel í leiknum en þeir sem hafa séð þetta aftur í sjónvarpinu sögðu mér að þetta hafi ekki verið rautt spjald. En svona er þetta bara, dómararnir gera mistök, það er hluti af leiknum. Eins og ég sagði sá ég þetta ekki sjálfur og ef þetta er rautt verður gerð skýrsla og við verðum bara að vonast til þess að Alexander verði með okkur í næsta leik.“