Fram tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarnum, með öruggum sigri gegn ÍR í Skógarseli í Breiðholti í 8-liða úrslitum keppninnar.
Leiknum lauk með ellefu marka sigri Framara, 34:23, en Þorvaldur Tryggvason var markahæstur Framara með sjö mörk.
Leikurinn var aldrei spennandi en Framarar leiddu með sex mörkum í hálfleik, 18:12, og ÍR-ingar voru aldrei líklegir til þess að minnka forskot Framara í síðari hálfleik.
Lárus Helgi Ólafsson átti stórleik í marki Framara, varði 17 skot og var með 43% markvörslu, en Dagur Sverrir Kristjánsson var markahæstur hjá ÍR-ingum með sex mörk.