Eyjamenn unnu nokkuð öruggan þriggja marka sigur á Selfyssingum í kvöld er liðin mættust í Olísdeild karla í handknattleik. Lokatölur voru 33:30 í fjörugum leik þar sem Ísak Gústafsson skoraði 12 mörk fyrir gestina og Kári Kristján Kristjánsson 12 mörk fyrir heimamenn.
Í fyrri hálfleik þá voru Eyjamenn með yfirhöndina allan tímann, munurinn var mestur fjögur mörk og gerðist það fimm sinnum í fyrri hálfleik að ÍBV komust fjórum mörkum yfir. Ísak Gústafsson skoraði níu mörk í fyrri hálfleik en hann gerði fimm fyrstu mörk gestanna.
Í síðari hálfleik byrjaði ÍBV á því að auka forskotið í sex mörk en liðið leiddi síðan út leikinn með 2-5 mörkum. Kári Kristján Kristjánsson skoraði fimm mörk í röð á kafla fyrir Eyjamenn en hann dró þá vagninn þegar aðrir voru farnir að þreytast.
Eyjamenn frumsýndu nýjan markvörð í síðari hálfleik en Pavel Miskevich varði fimm skot, líkt og Jón Þórarinn Þorsteinsson sem spilaði síðari hálfleikinn í marki Selfyssinga.
Guðmundur Hólmar Helgason lék ekki með Selfyssingum í dag og þá var Rúnar Kárason ekki með Eyjamönnum.