Matas Pranckevicus átti stórleik fyrir Hauka þegar liðið tók á móti Herði í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Leiknum lauk með sjö marka sigri Hafnfirðinga, 37:30, en Pranckevicus varði 17 skot í markinu og var með 46% markvörslu.
Jafnfræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Haukar með einu marki í hálfleik, 17:16. Hafnfirðingar voru hins vegar mun sterkari í síðari hálfleik og fögnuðu öruggum sigri.
Stefán Rafn Sigurmannsson fór mikinn fyrir Hauka, skoraði tíu mörk, en Leó Renaud-David var markahæstur í liði Harðar með sjö mörk.
Haukar eru því komnir áfram í undanúrslitin líkt og Fram en undanúrslitin fara fram 16. mars í Laugardalshöll og úrslitaleikurinn þann 18. mars.