Árni Bragi Eyjólfsson fór á kostum fyrir Aftureldingu gegn sínum gömlu félögum í KA þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í KA heimilinu á Akureyri í kvöld.
Leiknum lauk með þriggja marka sigri Aftureldingar eftir framlengdan leik, 35:32, en Árni Bragi skoraði níu mörk í leiknum.
Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en KA leiddu með þremur mörkum þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 23:20. Aftureldingu tókst að jafna metin í 25:25 og því var gripið til framlengingar þar sem Mosfellingar voru sterkari.
Ihor Kopyshynskyi skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu en Ólafur Gústafsson var markahæstur hjá KA með átta mörk.
Afturelding er því komið áfram í undanúrslitin, líkt og Fram og Haukar en undanúrslitin fara fram 16. mars í Laugardalshöll og úrslitaleikurinn 18. mars.