Handknattleikskonan Katla María Magnúsdóttir hefur farið á kostum með uppeldisfélagi sínu Selfossi í úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili.
Katla María, sem er 21 árs gömul, gekk til liðs við Selfoss frá Stjörnunni fyrir keppnistímabilið en hún er markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, ásamt Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur. Báðar hafa þær skorað 118 mörk í deildinni í vetur.
„Í hreinskilni sagt þá hefur það aðeins komið mér á óvart hversu vel mér hefur gengið á tímabilinu,“ sagði Katla María í samtali við Morgunblaðið.
„Ég vissi það svo sem, farandi inn í tímabilið, að ég kunni alveg handbolta en það hefur einhvern veginn allt gengið betur hjá mér persónulega á þessu tímabili. Á sama tíma hefur liðinu gengið vel líka og það hefur einnig komið mér á óvart,“ sagði Katla María.
Selfyssingar eru nýliðar í Olísdeildinni í ár en liðið er í sjöunda sætinu með 6 stig, tveimur stigum frá fallsæti.
„Ég hef þurft að axla meiri ábyrgð á tímabilinu, meðal annars vegna meiðsla lykilmanna. Hulda Dís Þrastardóttir meiddist og það var mikið áfall fyrir okkur. Við erum með mjög ungt lið og eftir að reynslumiklir leikmenn fóru að heltast úr lestinni þá fann ég það hjá sjálfri mér að ég þurfti að taka skref fram á við og stíga upp ef svo má segja.“
Viðtalið við Kötlu Maríu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.