Danska handknattleikskonan Ida Hoberg, leikmaður KA/Þórs fékk þungt högg á andlitið í leik liðsins gegn Haukum í Olísdeildinni á miðvikudagskvöld. Nefbrotnaði hún við höggið.
Höggið fékk hún í fyrri hálfleik en lék þrátt fyrir það síðari hálfleikinn í 32:28-sigri KA/Þórs í KA-heimilinu á Akureyri.
Í samtali við Handbolta.is kvaðst Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, binda vonir við að Hoberg myndi einungis missa af tveimur leikjum með liðinu.
Liðið á fyrir höndum tvo leiki í Olísdeildinni, gegn Stjörnunni í dag og Selfossi eftir rúma viku og eftir það tekur við landsleikjahlé.
Hoberg gæti verið leikfær að landsleikjahlénu loknu.