Þægilegur Eyjasigur í Kópavogi

Marta Wawrzykowska fór á kostum í marki ÍBV.
Marta Wawrzykowska fór á kostum í marki ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Marta Wawrzykowska læsti markinu er ÍBV vann tíu marka sigur á HK, 27:17, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Kórnum í dag. 

Jafnræði var á milli liðanna fyrstu 15 mínútur fyrri hálfleiksins. Liðin skiptu með sér mörkum en ÍBV leiddi. Seinni 15 mínúturnar náði ÍBV góðri forystu og fór sex mörkum yfir inn í seinni hálfleik, 12:6. 

Eyjakonur litu aldrei til baka og juku aðeins forskot sitt í síðari hálfleik leiksins. Mest náði Eyjaliðið tíu marka forystu, sem að lokum var niðurstaðan, 27:17. 

Sunna Jónsdóttir var markahæst í liði ÍBV sem og í leiknum með átta stykki. Liðskona hennar, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir kom þar á eftir með fimm mörk. Markahæstar í liði HK voru Jóhanna Lind Jónasdóttir og Embla Steindórsdóttir með fjögur. 

Marta Wawrzykowska átti stórleik í marki ÍBV og varði 18 af 29 skotum sem hún fékk á sig, sem gerir 62% markvörslu. 

ÍBV jafnar Val að stigum á toppnum, bæði með 30. HK er langneðst með tvö stig.

Mörk HK: Embla Steindórsdóttir 4,  Jóhanna Lind Jónasdóttir 4, . Sóley Ívarsdóttir 3, Aníta Eik Jónsdóttir 2, Katrín Hekla Magnúsdóttir 2, Amelía Laufey Gunnarsdóttir 1, Alfa Brá Hagalín 1. 

Varin skot: Margrét Ýr Björnsdóttir 7, Ethel Gyða Bjarnasen 1. 

Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 8, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 5, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Bríet Ómarsdóttir 3, Amelía Einarsdóttir 3, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1, Karolina Olszowa 1. 

Varin skot: Marta Wawrzykowska 18, Ólöf Maren Bjarnadóttir 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert