Handknattleiksmennirnir Bergvin Þór Gíslason og Þorsteinn Leó Gunnarsson, leikmenn Aftureldingar, verða báðir frá um skeið eftir að hafa meiðst í leik liðsins gegn KA í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins á miðvikudagskvöld.
Bergvin Þór fékk þungt högg á vinstri öxlina og Þorsteinn Leó Gunnarsson meiddist á vinstri ökkla.
Afturelding vann leikinn 35:32 eftir framlengingu í KA-heimilinu á Akureyri.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sagði í samtali við Handbolta.is að afleitt væri að missa þá báða í meiðsli.
Hve lengi þeir verða frá er ekki komið í ljós en Gunnar sagði það ljóst að báðir yrðu frá í einhvern tíma.