Mögnuð endurkoma Gróttu í Kaplakrika

Hannes Grimm í þann mund að skora eitt af sjö …
Hannes Grimm í þann mund að skora eitt af sjö mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Grótta hafði betur gegn FH, 36:35, þegar liðin áttust við í hörkuleik í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld.

Fyrri hálfleikur var geysilega fjörugur þar sem mikið var skorað.

FH tók fljótt stjórnina og var þegar komið með fimm marka forskot, 8:3, þegar einungis tæplega átta mínútur voru liðnar af leiknum.

Við það vaknaði Grótta af værum blundi og skoraði fjögur mörk í röð. Munurinn var því skyndilega orðinn aðeins eitt mark.

FH náði þó fljótt aftur vopnum sínum og leiddi með fimm mörkum, 21:16, í hálfleik.

Grótta byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og náði að minnka muninn niður í 22:20.

Aftur fann FH fjölina og náði fimm marka forskoti að nýju, 26:21.

Enn var Grótta þó ekkert á því að gefast upp og var búin að jafna metin í 32:32 þegar rúmar sex mínútur voru eftir.

Í hönd fóru æsilegar lokamínútur þar sem Birgir Steinn Jónsson reyndist hetja Gróttu þegar hann skoraði úr vítakasti í blálokin og tryggði Seltirningum ótrúlegan sigur.

Var þetta í fyrsta og eina skiptið í leiknum sem Grótta náði forystunni í leiknum.

Birgir Steinn fór á kostum og skoraði 15 mörk fyrir Gróttu.

Markahæstur hjá FH var reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson með 11 mörk.

Sigurinn var kærkominn fyrir Gróttu þar sem liðið er áfram í níunda sæti en nú með 13 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

FH er áfram í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Vals.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 11, Einar Bragi Aðalsteinsson 7, Egill Magnússon 4, Birgir Már Birgisson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Daníel Matthíasson 1

Varin skot: Phil Döhler 11, Axel Hreinn Hilmisson 1.

Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 15, Hannes Grimm 7, Jakob Ingi Stefánsson 5, Theis Koch Sondergard 3, Þorgeir Bjarki Davíðsson 3, Ari Pétur Eiríksson 1, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 1, Daníel Örn Griffin 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 8, Daníel Andri Valtýsson 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert