Eigum helling inni gegn Aix

Aron Dagur Pálsson í strangri gæslu hjá leikmanni Ferencváros í …
Aron Dagur Pálsson í strangri gæslu hjá leikmanni Ferencváros í Evrópudeildinni í desember síðastliðnum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Aron Dagur Pálsson, leikmaður Vals, segir liðið stefna ótrautt á að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik með sigri á franska liðinu Aix annað kvöld.

„Þessi leikur leggst ógeðslega vel í okkur. Það er búið að vera nóg af mikilvægum leikjum undanfarið. Það er frábært að fá leik á morgun.

Við spiluðum hörkuleik, síðasta leik í Evrópudeildinni, sem var úrslitaleikur um að komast í úrslitaleikinn á morgun. Okkar markmið er að vinna þennan leik, það er klárt,“ sagði Aron Dagur í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund í Origo-höllinni á Hlíðarenda í dag.

Líkt og hann nefndi hefur Valur verið að spila mikið af mikilvægum leikjum undanfarið og er skammt stórra högga á milli þar sem liðið vann frábær sigur á Benidorm í Evrópudeildinni síðastliðinn þriðjudag og þurfti svo að sætta sig við svekkjandi tap fyrir Stjörnunni í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins á föstudag.

Kostir og gallar

„Það eru kostir og gallar í þessu. Maður vinnur geggjaða leiki eins og á þriðjudaginn síðasta en þá getur maður ekki leyft sér að vera uppi of lengi.

Það sama má segja um svekkjandi tap eins og á föstudaginn, þá þýðir ekki að vera að svekkja sig of lengi, það er bara nýr leikur strax 3-4 dögum seinna. Það er bara heilt yfir mjög jákvætt held ég,“ útskýrði Aron Dagur.

Höfum staðið fastir á markmiðinu

Valur tapaði fyrri leik liðanna í Frakklandi, 29:32.

„Við spiluðum hörkuleik við þá úti. Við vorum ekkert endilega á okkar besta stað á tímabilinu síðast þegar við mættum þeim, vorum svona hálf laskaðir margir í liðinu. Þannig að ég held að við eigum í rauninni helling inni eftir fyrri leikinn á móti þeim.

Við förum bjartsýnir inn í leikinn á morgun en við vitum líka að við erum að keppa á móti hörkuliði úr frönsku deildinni þannig að við þurfum að eiga frábæran leik til þess að vinna þá,“ sagði hann.

„Það liggur ljóst fyrir að ef við vinnum leikinn á morgun þá er fyrsta markmiðinu okkar, að komast upp úr þessum riðli, náð. Við höfum bara staðið fastir á því og það vonandi tekst á morgun,“ sagði Aron Dagur að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka