Haukar styrktu verulega stöðu sína í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þegar þeir lögðu Aftureldingu að velli að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld, 26:24.
Haukar komust þar með að hlið ÍBV í í sjöunda og áttunda sæti með 16 stig en Eyjamenn eiga hins vegar þrjá frestaða leiki til góða.
Afturelding hefði náð FH að stigum með sigri en er áfram í þriðja sæti með 19 stig, tveimur stigum á eftir FH-ingum.
Afturelding var yfir nær allan fyrri hálfleikinn og náði þar mest fjögurra marka forystu, 12:8. Haukar náðu hins vegar að jafna metin með góðum endaspretti og staðan var 14:14 í hálfleik.
Haukar sigu fljótlega fram úr í síðari hálfleiknum. Afturelding jafnaði í 20:20 en Haukar svöruðu og voru þremur mörkum yfir, 25:22, þegar fimm mínútur voru eftir. Þá misstu Haukar Andra Má Rúnarsson af velli með rautt spjald og í kjölfarið vörðu markverðir beggja liða vítakast, Aron Rafn Eðvarðsson fyrir Hauka og Jovan Kukobat fyrir Aftureldingu.
Árni Bragi Eyjólfsson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu í 25:23 og Blær Hinriksson í 25:24 þegar 80 sekúndur voru eftir. Adam Haukur Baumruk kom Haukum hins vegar í 26:24 þegar 40 sekúndur voru eftir.
Afturelding nýtti ekki næstu sókn og Haukar héldu boltanum út leiktímann.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Gestur Ólafur Ingvarsson 4, Ihor Kopyshynskyi 4, Blær Hinriksson 3, Stefán Scheving Guðmundsson 2, Birkir Benediktsson 2, Einar Ingi Hrafnsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 10, Jovan Kukobat 7.
Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 6, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Tjörvi Þorgeirsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Andri Már Rúnarsson 2, Geir Guðmundsson 1, Össur Haraldsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 16.