Snýr heim eftir fjögurra ára fjarveru

Perla Ruth Albertsdóttir í leik með Selfyssingum fyrir nokkrum árum.
Perla Ruth Albertsdóttir í leik með Selfyssingum fyrir nokkrum árum. mbl.is/Golli

Handknattleikskonan Perla Ruth Albertsdóttir snýr aftur heim til Selfyssinga í sumar eftir fjögur ár í röðum Framara og hefur samið við félagið til þriggja ára.

Perla Ruth, sem er 26 ára gömul, leikur ýmist sem hornamaður eða línumaður og lék með Selfyssingum til 2019. Hjá Fram hefur hún orðið bæði Íslands- og bikarmeistari á síðustu árum. Hún á að baki 27 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur skorað í þeim 39 mörk.

Perla Ruth er næstmarkahæsti leikmaður Fram í úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili með 77 mörk í 17 leikjum.

Áður en Perla fór til Fram lék hún 137 mótsleiki með Selfyssingum og skoraði í þeim 457 mörk en í tilkynningu frá félaginu segir að hún sé ein af þeim leikja- og markahæstu hjá Selfossi frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert