Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, segir það vera forréttindi að eiga möguleika á að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla með sigri á franska liðinu Aix annað kvöld.
„Leikurinn leggst ógeðslega vel í mig, það er bara þannig. Ég er ótrúlega spenntur fyrir honum. Að spila úrslitaleik um að komast upp úr riðlinum í Evrópukeppni, á heimavelli, það er æðislegt og forréttindi.
Það hefur ekkert breyst með það að við þurfum alltaf góðan leik, þurfum að kalla okkar besta fram. Við höfum sýnt að við getum það,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í Origo-höllinni á Hlíðarenda í dag.
„Ég reikna með fullu húsi. Þeir sem eiga eftir að kaupa miða, kaupið miða! Það er eina skoðunin sem ég hef á þessu,“ bætti hann við í léttum tón.
„Upplifunin á öllum þessum heimaleikjum hingað til hefur verið æðisleg og eitthvað sem ég mun allavega ekki gleyma. Að vera í þeirri stöðu að geta fjölgað leikjunum um allavega einn á heimavelli er æðislegt,“ hélt Snorri Steinn áfram.
Hann kvaðst bjartsýnn fyrir leikinn á morgun.
„Ég hef óbilandi trú á mínu liði. Ég er bara þannig gerður. Það sem við höfum náð að gera, það sem við erum búnir að búa til. Það þarf meira heldur en einn tapleik í bikarnum til þess að brjóta okkur og skilgreina okkur.“
Vísaði Snorri Steinn þar til svekkjandi taps gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins síðastliðinn föstudag.
„Það að ganga í gegnum mótlæti er hluti af því að vera í þessu. Það má ekki gleyma því að mótlætið bjó svolítið til velgengnina sem við höfum upplifað.
Nú er það bara að sýna að við séum alvöru gaurar, að við getum mætt hérna nokkrum dögum seinna og gefið í.
Ég hef einhvern veginn engar áhyggjur af því að mínir menn leggi ekki allt í sölurnar á morgun. Það kæmi mér allavega mjög á óvart,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.