Vona að Donni nái sér af þessu

Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM …
Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM 2023 í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, reiknar með sterku liði Aix í leik liðanna í B-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik karla annað kvöld þrátt fyrir að einhver skakkaföll séu í liði Frakkanna.

Þar á meðal vantar hægri skyttuna og landsliðsmanninn Kristján Örn Kristjánsson, sem er kominn í ótímabundið leyfi vegna kulnunar.

„Þeir eru með einhver skakkaföll, allavega miðað við síðasta leik sem þeir spiluðu. Það breytir því þó ekki að ég á von á hörkuleik. Þetta er ekkert drasl lið, þetta er lið sem hefur kannski ekki spilað eins vel og menn reiknuðu með og þeir reiknuðu með heima fyrir.

Ég veit ekki svörin við því hvað nákvæmlega veldur því en við erum að fara að mæta liði sem er topplið í Frakklandi.

Það er óháð því hvort það vanti einn eða tvo leikmenn hjá þeim, ég þarf ekkert minna til frá mínu liði til þess að komast áfram,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í Origo-höllinni á Hlíðarenda í dag.

Væntanlega engar líkur á þátttöku

Hann viðurkenndi þó að það gæti hjálpað Val að nokkrir lykilmanna Aix geti ekki tekið þátt í leiknum á morgun.

„Það eru alveg leikmenn þarna, [Ian Tarrafeta] Serrano og [Romain] Lagarde, sem er alveg fínt að séu ekki með,“ sagði Snorri Steinn.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristján Örn, ávallt kallaður Donni, verður að öllu óbreyttu ekki með.

„Það eru væntanlega engar líkur á að Donni sé með. Hann er í kulnun og þá reikna ég ekki með því að hann geti spilað á næstunni. Vonandi nær hann sér af því.

Það vantar ekkert mennina þarna. En ef við náum góðum leik þá höfum við getað sýnt það að við erum flottir í þessari keppni,“ bætti hann við.

Veit ekki hvort hægt sé að vera hissa lengur

Aix hefur tapað tveimur leikjum í röð í B-riðlinum, gegn Benidorm og Ferencváros. Hvað fór úrskeiðis hjá franska liðinu í þeim leikjum?

„Það er svona eitt og annað en fyrst og fremst fannst mér bæði Benidorm og Ferencváros spila góðan leik. Við megum ekki gleyma því að miðað við hvernig riðilinn hefur spilast þá eru þetta bara jöfn lið.

Ég veit ekki hvort menn eigi að vera hissa á því eitthvað mikið meira þegar tvær umferðir eru eftir. En jú, kannski reiknuðu menn með Frökkunum betri, eða allavega með fleiri stig. Fyrir fram var það spáin hjá mönnum en svo eru lið sem koma á óvart og annað slíkt,“ útskýrði Snorri Steinn.

Sjö stig nóg í hinum riðlunum

Valur er með sjö stig að loknum átta leikjum í riðlinum.

„Það er kannski bara það sem við höfum lært í þessum riðli. Það er kannski jákvætt og neikvætt fyrir okkur. Sjö stig í hinum riðlunum hefðu dugað en við þurfum meira til, það er á hreinu.

Á morgun er í raun forréttindatækifæri fyrir okkur. Við þurfum að reyna að njóta þess en að sama skapi spila góðan leik,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka